Forsíða
1.3 Starfsemi ársins

Efna­hags­um­hverfi

Þróun á helstu mörkuðum og hagstærðum sem hafa áhrif á eignasafn sjóðsins.

Verð­lags­þró­un

Verðbólga hækkaði nokkuð jafnt og þétt á árinu og var í lok árs 5,1%, nokkuð yfir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands sem skilgreinir stöðugt verðlag sem 2,5% verðbólgu á tólf mánuðum. Helsta ástæða vaxandi verðbólgu er talin vera hækkanir á fasteignamarkaði auk hækkandi verðs á innfluttum aðföngum vegna takmarkaðrar framleiðslu þeirra erlendis af völdum COVID-19 faraldursins. Seðlabankinn hækkaði vexti fjórum sinnum á árinu, samtals um 1,25% stig, úr 0,75% í 2,00%, til að bregðast við aukinni verðbólgu.

Helsta ástæða vaxandi verðbólgu er talin vera hækkanir á fasteignamarkaði auk hækkandi verðs á innfluttum aðföngum

Verð­bólgu­þró­un

und­an­far­in 5 ár
20172018201920202021

Lands­fram­leiðsla

Landsframleiðsla jókst um 4,3% á síðasta ári eftir verulegan samdrátt árið áður en svo virðist sem að efnahagskerfið sé að ná sér upp aftur eftir niðursveifluna sem varð vegna áhrifa kórónuveirunnar. Ferðaþjónustan er ein helsta útflutningsgrein þjóðarinnar en lagðist að miklu leyti í dvala þegar landinu var nánast lokað vegna sóttvarna.

At­vinnu­leysi

Skráð almennt atvinnuleysi mældist 4,9% í desember og hefur minnkað jafnt og þétt frá því í janúar 2021 þegar það mældist 12,8%. Gengisvísitala íslensku krónunnar lækkaði um 2,4% á árinu, þar af var 2,49% veiking gagnvart Bandaríkjadal og um 5,45% styrking gagnvart evru.

Skulda­bréfa­mark­að­ur

Árið 2021 var innlendum skuldabréfamarkaði frekar erfitt. Eftir tímabil vaxtalækkana tóku vextir að hækka í maí 2021. Ávöxtunarkrafa óverðtryggðra skuldabréfa hækkaði á meðan ávöxtunarkrafa verðtryggðra skuldabréfa stóð í stað eða lækkaði lítillega. Aðalvísitala skuldabréfa (NOMXIBB) hækkaði um 1,22%, óverðtryggð skuldabréfavísitala Kauphallarinnar (NOMXINOM) lækkaði um 1,48% og sú verðtryggða (NOMXIREAL) hækkaði um 6,5%. Í árslok voru 18 sjálfbær skuldabréf á skrá hjá Kauphöllinni og fjölgaði um átta á árinu.

18 sjálfbær skuldabréf á skrá hjá Kauphöllinni og fjölgaði um átta á árinu

Skulda­bréfa­vísi­töl­ur

á ár­inu
JFMAMJJÁSOND

Hluta­bréfa­mark­að­ur

Árið 2021 var tíðindamikið á hlutabréfamörkuðum um heim allan. Á Íslandi hækkaði vísitala skráðra félaga í Nasdaq Iceland (OMXIGI) um rúm 42% á árinu og var ávöxtun yfir árið nokkuð jöfn. Þrátt fyrir að Seðlabanki Íslands hafi byrjað að hækka stýrivexti á árinu voru vextir enn í sögulegu lágmarki. Studdi það við flæði inn á hlutabréfamarkaðinn þar sem fjármagn, sem áður var í innlánum og öruggum skuldabréfum, kom inn á markaðinn í leit að hærri ávöxtun. Fleiri þættir en lágir vextir höfðu þó áhrif á markaðinn og má þar nefna að rekstur flestra félaga í Kauphöllinni gekk vel á árinu og svo virðist sem neikvæð áhrif og áhyggjur af kórónuveirunni hafi verið að fjara út. Arion banki hækkaði mest á árinu eða um rúm 100% en á sama tíma hækkaði Marel sem er stærsta félagið í Kauphöllinni minnst allra skráðra félaga eða um tæp 11%.

Hluta­bréfa­vísi­tala

á ár­inu
JFMAMJJÁSOND

Félög með tengingu við ferðamannageirann, t.d. flugfélög og félög í hótelrekstri, hafa búið við mjög erfiðar markaðsaðstæður vegna kórónufaraldursins en staðan hefur þó verið að þróast í jákvæða átt samhliða aukinni bólusetningu, afléttingu samkomutakmarkana og aukinni löngun fólks til að ferðast. Bankarnir höfðu fært háar fjárhæðir í varúðarsjóði vegna óvissu um afleiðingar faraldursins og áhrifa hans á lánasöfn þeirra. Nú þegar myndin er farin að skýrast er ljóst að áhrif faraldursins á getu einstaklinga og fyrirtækja til að greiða af lánum voru minni en gert hafði verið ráð fyrir og hafa því bankarnir komið nokkuð vel frá faraldrinum, með sterk lánasöfn og hátt eigið fé. Samhliða lækkun vaxta jókst einkaneysla og kaupmáttur töluvert á árinu sem studdi við verslun í landinu ásamt takmarkaðri getu fólks til að ferðast út fyrir landsteinana og versla erlendis. Sjávarútvegsfélögin skiluðu góðri afkomu á árinu og má þar nefna að loðnuvertíðin gekk betur á árinu 2021 en á árinu 2020, en þá var ekki gefin út heimild til veiði á loðnu. Tryggingafélögin hafa notið góðs af miklum hækkunum á verðbréfamörkuðum og hefur tryggingareksturinn sömuleiðis gengið vel.

Á árinu voru tvö ný félög skráð á aðalmarkað Kauphallarinnar, Síldarvinnslan og Íslandsbanki. Óhætt er að segja að bæði hlutafjárútboðin hafi gengið mjög vel þar sem þátttaka fagfjárfesta og ekki síður almennings var mikil og talsverð umframeftirspurn í báðum útboðum. Eitt félag hvarf af aðalmarkaði en það var tryggingafélagið TM, sem sameinaðist Kviku banka. Einnig voru tvö ný félög skráð á First North markað Kauphallarinnar, flugfélagið Play og tölvuleikjaframleiðandinn Solid Clouds.

2ný félög skráð á aðalmarkað
2ný félög skráð á Nasdaq First North

Er­lend verð­bréf

Ávöxtun erlendra hlutabréfa á helstu verðbréfamörkuðum var góð á árinu 2021 þrátt fyrir efnahagsóvissu á heimsvísu í kjölfar útbreiðslu kórónuveirunnar.

Heimsvísitala hlutabréfa (MSCI) sem mælir gengi rúmlega 1.600 hlutabréfa í heiminum, hækkaði um 22,38% mælt í Bandaríkjadölum. Ef mælt er í íslenskum krónum hækkaði vísitalan hins vegar um 24,29%.

Sé horft til einstakra hlutabréfamarkaða hækkuðu hlutabréf í Bandaríkjunum (MSCI USA) um 26,97% mælt í Bandaríkjadölum en 28,96% mælt í krónum. Hlutabréf í Evrópu (MSCI Europe) hækkuðu um 25,81% mælt í evrum en 19,02% mælt í krónum. Hlutabréf nýmarkaðsríkja sem vísitalan MSCI Emerging Markets mælir hækkuðu um 14,57% mælt í Bandaríkjadölum en 16,36% mælt í krónum.

Heimsvísitala hlutabréfa hækkaði um 24,29% á árinu