Forsíða
1.2 Starfsemi ársins

Ávarp framkvæmda­stjóra

Gerð­ur Guð­jóns­dótt­ir

Þó að árið 2021 hafi verið erfitt og annasamt þar sem kórónuveirufaraldurinn hélt áfram að setja sitt mark á samfélagið var það gott ár í starfsemi sjóðsins. Faraldurinn ýtti við okkur að hugsa hlutina upp á nýtt og finna framsæknar lausnir. Starfsfólk sjóðsins býr yfir mikilli reynslu sem kemur sér vel við krefjandi aðstæður og vann þrekvirki til að tryggja sjóðfélögum örugga þjónustu.

Afkoma sjóðsins var góð, rekstrarkostnaður reyndist undir áætlun og árangur í fjárfestingum sá allra besti frá árinu 2003. Fjárfestingartekjur ársins 2021 námu 42,6 ma.kr. og skiluðu sjóðnum 14,3% nafnávöxtun og 9,0% raunávöxtun.  

Faraldurinn ýtti við okkur að hugsa hlutina upp á nýtt og finna framsæknar lausnir

Sam­þykkta­breyt­ing­ar

Samþykktum sjóðsins var breytt í tvígang á árinu. Annars vegar var um að ræða breytingar á réttindatöflum í A og V deild í samræmi við tillögu tryggingastærðfræðings sjóðsins þar sem niðurstaða tryggingafræðilegrar athugunar ársins 2019 var með halla vegna framtíðariðgjalda miðað við þáverandi forsendur um lífs- og örorkulíkur. Hins vegar voru gerðar breytingar á 3. grein um stjórn og umboð hennar en þær breytingar eru í takt við kröfur Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands. Þá um leið voru gerðar breytingar á ákvæðum í B deild til að heimila að viðmið lífeyris sem fylgja eftirmannsreglu fari yfir á meðaltalsreglur þegar störf hafa verið lögð niður hjá launagreiðenda.

Ný og auk­in þjón­usta

Sjóðurinn hefur tekið upp nýja þjónustu sem gerir það enn þægilegra að bóka tíma í samtal vegna lána- eða lífeyrismála. Á heimasíðu sjóðsins er nú hægt að bóka samtal í síma, TEAMS eða á starfstöð sjóðsins en þessi þjónusta auðveldar sjóðfélögum aðgengi að þjónustu sjóðsins, stuðlar að betra skipulagi hjá starfsfólki sjóðsins og hjálpar okkur að koma til móts við þær sóttvarnarreglur sem í gildi eru á hverjum tíma.      

Á heimasíðu sjóðsins er nú hægt að bóka samtal í síma, TEAMS eða á starfstöð sjóðsins

Að­ild að A deild

Borið hefur á því að sveitarfélög hafi fært ákveðna starfsemi sína í annað félagaform, svo sem sjálfseignarstofnun, en slík breyting getur haft áhrif á lífeyrisréttindi starfsfólks.  

Í ákvæði 2.1. í samþykktum lífeyrissjóðsins er tilgreint hverjir eru sjóðfélagar í A deildinni, en það eru starfsfólk sveitarfélaga, stofnana, fyrirtækja og samlaga þeirra sem ráðnir eru samkvæmt kjarasamningi milli aðildarfélaga BSRB, BHM og KÍ.

Á grundvelli lögfræðiálits er það mat stjórnar sjóðsins að sjálfseignarstofnun uppfylli ekki skilyrði ákvæðis 2.1. í samþykktum sjóðsins um að vera í eigu sveitarfélags. Starfsfólk stofnana, sem reknar eru í þessu rekstrarformi, eru því ekki taldir eiga rétt á aðild að A deild sjóðsins, nema þá á grundvelli ákvörðunar sjóðstjórnar um að gera undantekningu.

Við beitingu undanþáguheimildar um aðild að A deildinni ber að líta til þess hvort samþykki fyrir aðild hafi í för með sér aukna fjárhagslega áhættu fyrir aðra sjóðfélaga sem samþykktir sjóðsins gera ekki ráð fyrir. Þessi áhætta er fyrir hendi ef starfsfólk (sjóðfélagi) annaðhvort hafði náð 60 ára aldri hinn 1. júní 2017 eða á rétt til jafnrar ávinnslu (lífeyrisauka) samkvæmt reglum í samþykktum þar um. 

Ef undanþáguheimild til aðildar að A deild yrði beitt gagnvart starfsfólki (sjóðfélögum) sem rétt eiga til jafnrar ávinnslu (lífeyrisauka) þyrfti að gera samhliða ráðstafanir til að tryggja sjóðinn (A deildina) fyrir áhættunni. Það var mat stjórnar að einhvers konar fjárhagsleg trygging úr hendi launagreiðanda, þ.e. sjálfseignarstofnunarinnar, í formi yfirlýsingar væri áhættusöm m.a. með tilliti til mögulegrar greiðslugetu og rekstrarforms slíks launagreiðanda. Þá er sveitarfélagi óheimilt að ganga í ábyrgð fyrir skuldbindingum sjálfseignarstofnunar sbr. ákvæði 69. gr. sveitarstjórnarlaga, þar með að veita slíka fjárhagslega tryggingu.

Breytt verklag við gerð
ör­orku­líf­eyr­is­úrskurða 

Þann 1. apríl 2021 var tekið upp breytt verklag við gerð úrskurða fyrir örorkulífeyri með því að taka fullt tillit til greiðslna sjóðfélaga frá Tryggingastofnun ríkisins við frumúrskurð örorku. Áður voru greiðslur sjóðfélaga frá Tryggingastofnun skertar við frumúrskurð. Við tekjueftirlit sjóðsins á örorkulífeyri munu hækkanir á greiðslum frá Tryggingastofnun ekki hafa áhrif á tekjuviðmið sjóðfélaga. Miðast það verklag við úrskurðarár frumúrskurðar hvers og eins örorkulífeyrisþega.

Sjálf­bærni og lofts­lags­mál

Sjálfbærni verður sífellt mikilvægari þáttur í rekstri og fjárfestingum sjóðsins og nú í ár birtir sjóðurinn í fyrsta skipti sjálfbærniuppgjör og sjálfbærniskýrslu.

Sjálfbærni, loftlagsmál og jafnrétti eru sífellt mikilvægari þættir í rekstri og fjárfestingum sjóðsins

Jafn­launa­vott­un

Sjóðurinn hlaut jafnlaunavottun samkvæmt ÍST85 staðlinum en markmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Vottuninn nær yfir allt starfsfólk sjóðsins og staðfestir að sjóðurinn hefur komið sér upp kerfi sem tryggir að málsmeðferð og ákvarðanir í launamálum séu kerfisbundnar, byggi á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun. Jafnrétti skiptir okkur máli og við erum stolt af því að enginn launamunur kynjanna mælist hjá sjóðnum.

Breyt­ing á lána­regl­um

Sjóðurinn breytti sínum lánareglum í samræmi við reglur Seðlabanka Íslands nr. 778/2021 um hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána til neytenda sem samþykktar voru á fundi fjármálastöðugleikanefndar 29. júní 2021 og tóku gildi 1. júlí 2021. Í reglunum er hámark veðsetningarhlutfalls lækkað úr 85% í 80%. Hámarkshlutfall fyrir fyrstu kaupendur er hins vegar óbreytt, eða 85%. 

Há­mark greiðslu­byrð­ar fast­eignalána

Í lok september birti Seðlabanki Íslands reglur nr. 1077/2021 um hámark greiðslubyrðar fasteignalána í hlutfalli við tekjur neytenda en reglurnar tóku gildi 1. desember 2021. 

Samkvæmt reglunum skal hámark greiðslubyrðar nýrra fasteignalána vera 35% af mánaðarlegum ráðstöfunartekjum neytenda en hámarkshlutfall fyrir þá sem eru að kaupa fasteign í fyrsta sinn er 40%. Við útreikninginn er lánveitendum heimilt að miða lánstíma að hámarki við 40 ár fyrir óverðtryggð fasteignalán og við 30 ár fyrir verðtryggð fasteignalán.

Breyt­ing­ar framund­an hjá Brú

Sjóðurinn hefur unnið að því að skerpa áherslur og framtíðarsýn til að marka leiðina og forgangsraða verkefnum. Áfram verður lögð áhersla á stafræna vegferð og markmið okkar er að auka þjónustuhlutfall sjálfvirkrar afgreiðslu til að einfalda sjóðfélögum okkar lífið og lækka rekstrarkostnað sjóðsins til lengri tíma.

Brú lífeyrissjóður hefur á að skipa framúrskarandi starfsfólki sem hefur lagt sitt af mörkum til að koma sjóðnum í gegnum áskoranir síðustu ára og er reiðubúið til að bretta upp ermarnar til að leysa þau spennandi verkefni sem framundan eru.

Áfram verður lögð áhersla á stafræna vegferð og markmið okkar er að auka þjónustuhlutfall sjálfvirkrar afgreiðslu