Forsíða
1.1 Starfsemi ársins

Ávarp stjórnar­formanns

Garð­ar Hilm­ars­son

Liðið starfsár reyndist vera árangursríkt og hagsælt fyrir Brú lífeyrissjóð en ekki síður viðburðaríkt. Á árinu gætti enn áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru á hagkerfi heimsins og sveiflur voru bæði á innlendum og erlendum verðbréfamörkuðum. Staða faraldursins og framvinda bólusetninga spilaði þar stórt hlutverk. Lágir vextir og bjartsýni um endalok faraldursins höfðu jákvæð áhrif á flesta hlutabréfamarkaði og sjóðurinn naut góðs af því sem og aðrir fjárfestar. Raunávöxtun sjóðsins var 9% og nafnávöxtun nam 14,3%. Þetta er nokkuð yfir meðaltali raunávöxtunar síðastliðinna ára, en 5 ára meðaltalið er 6,5% og 10 ára meðaltalið 5,4%, og þar með yfir því viðmiði sem lífeyrissjóðir nota við útreikning á tryggingafræðilegri stöðu sem er 3,5%.

Lágir vextir og bjartsýni um endalok faraldursins höfðu jákvæð áhrif á flesta hlutabréfamarkaði og sjóðurinn naut góðs af því

Ís­land er ágæt­lega sett

Innrás rússneskra stjórnvalda inn í Úkraínu og viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum munu hafa áhrif á efnahagsþróun heimsins. Ísland er þó betur sett varðandi bein efnahagsáhrif en ýmis önnur ríki og ólíklegt virðist að efnahagsbatinn sem hófst á síðasta ári snúist upp í samdrátt. Áhrif stríðs eru og verða gríðarleg og mun óvissan sem ríkir velta bæði á þróun átakanna sjálfra og stöðunni sem uppi verður í Úkraínu, Rússlandi og Hvíta-Rússlandi að þeim loknum. Miklar sveiflur eru á viðskiptamörkuðum heimsins og verð á margvíslegri hrávöru hefur rokið upp enda eru Rússar og Úkraínumenn stórir útflytjendur slíkrar vöru. Hækkun á hrávöru- og orkuverði mun að öðru óbreyttu þrýsta verðbólguhorfum upp á við. Ávöxtun sjóðsins á fyrstu mánuðum þessa árs endurspeglar þennan veruleika.

Græn fjár­fest­ing­ar­stefna

Stjórn sjóðsins samþykkti í nóvember síðastliðnum fjárfestingarstefnu fyrir árin 2022-2026. Í stefnunni má finna áherslubreytingar sem felast í að auka vægi erlendra og innlendra hlutabréfa og draga úr hlut skuldabréfa einkum ríkisskuldabréfa, en breytingin hefur þann tilgang að ná hærri langtímaávöxtun.

Í nóvember 2021 skrifaði sjóðurinn undir viljayfirlýsingu gagnvart alþjóðlegu samtökunum Climate Investment Coalition (CIC) um að fjárfesta fyrir 323 milljónir Bandaríkjadala eða rúmlega 42 ma.kr. í verkefnum sem tengjast hreinni orku og öðrum umhverfisvænum lausnum fram til ársins 2030. Í eignasafni Brúar eru nú þegar fjárfestingar fyrir rúmlega 12 ma.kr. sem skilgreindar eru sem grænar fjárfestingar hjá CIC. Vaxandi áhersla á grænar fjárfestingar er í samræmi við stefnu Brúar um ábyrgar fjárfestingar. Brú lífeyrissjóður er einn af þrettán íslenskum lífeyrissjóðum sem hafa undirritað yfirlýsinguna en með henni hafa sjóðirnir staðfest vilja sinn til að auka sjálfbærar fjárfestingar og styðja þannig eindregið við markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu.

Á hverju ári hefur sjóðurinn tekið markviss skref til frekari innleiðingar á UFS-viðmiðum í fjárfestingum sjóðsins en við mat á fjárfestingarkostum er lögð aukin áhersla á greiningu á umhverfis-, félags- og stjórnarháttum án þess að slá af kröfunni um arðbærni fjárfestinga.

Í eignasafni Brúar er nú þegar fjárfestingar fyrir rúmlega 12 ma.kr. sem skilgreindar eru sem grænar fjárfestingar hjá CIC

Hækk­andi líf­ald­ur

Fjármála- og efnahagsráðuneytið staðfesti þann 22. desember 2021 tillögur Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga (FÍT) um breytingar á forsendum reiknigrunns um lífslíkur. Breytingar á forsendum reiknigrunnsins ganga út á að reikna lífslíkur út frá spám sem byggja á að meðalævi landsmanna haldi áfram að lengjast í stað þess að reikna lífslíkur út frá reynslu fortíðar. Áhrifin af þessum breytingum eru þau að gert er ráð fyrir lengri lífslíkum sem eykur skuldbindingar lífeyrissjóða þar sem þeir greiða eftirlaun til æviloka.

Allir lífeyrissjóðir landsins verða að taka tillit til breyttra forsendna um lífslíkur fyrir tryggingafræðilega athugun ársins 2023. Brú lífeyrissjóður hefur þegar innleitt nýju forsendurnar í tryggingafræðilegri athugun fyrir árið 2021.

Þá voru forsendur um mat á örorkutíðni í A og V deild hækkaðar þar sem aukning örorkuskuldbindinga hefur verið umfram fyrri forsendur nú þrjú ár í röð.

Áhrif nýrra forsenda á stöðu A deildar sjóðsins eru þau að heildarskuldbinding er neikvæð um 39,8 ma.kr. en er með eldri forsendum var hún jákvæð um 6,6 ma.kr.

Áhrif nýrra forsenda á stöðu V deildar sjóðsins eru þau að heildarskuldbinding er neikvæð um 9,2 ma.kr. en er með eldri forsendum var hún jákvæð um 4,2 ma.kr.

Áhrif nýrra forsenda á stöðu B deildar sjóðsins eru þau að heildarskuldbinding er neikvæð um 10,9 ma.kr. en er með eldri forsendum var hún neikvæð um 7,6 ma.kr. Sjóðurinn mun ekki grípa til mótvægisaðgerða fyrir B deild þar sem réttindi sjóðfélaga eru tryggð af viðeigandi sveitarfélögum.

Breytingar á forsendum reiknigrunns um lífslíkur

Á vinnufundi stjórnar í desember var áhersla lögð á greiðslur sjóðsins á örorkulífeyri sem hafa aukist jafnt og þétt á síðustu árum og er hlutfall slíkra greiðslna hjá sjóðnum með hærra móti í samanburði við aðra lífeyrissjóði. Á fundinn kom Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri VIRK starfsendurhæfingarsjóðs, og kynnti starfsemina, framtíðarsýnina og árangur af samstarfinu við sjóðinn.

Einnig var farið yfir áhrif lagabreytinganna frá 2017 á A deildina en eins og staðan var í árslok 2020 nam halli lífeyrisaukasjóðsins um 10 ma.kr. Miðað við þær forsendur sem notaðar voru við útreikninga á tryggingafræðilegri stöðu í árslok 2020 þarf sjóðurinn ekki að innheimta að svo komnu máli hjá launagreiðendum fyrir hópana tvo sem nutu verndar við lagabreytinguna, þ.e. annars vegar hóp sjóðfélaga sem var kominn á lífeyri þann 31. maí 2017 og þeirra sem voru eldri en 60 ára við sömu tímamörk. Halli lífeyrisaukasjóðsins er aðallega tilkominn vegna framtíðarréttindanna en hann mun aukast enn frekar vegna nýrra forsendna við útreikning á tryggingafræðilegri stöðu.

Þakk­ir til starfs­fólks

Áhrif Covid-19 setti aftur sitt mark á starfsemi ársins 2021 en vegna sóttvarnaraðgerða var móttaka sjóðsins lokuð stóran hluta af árinu. Starfsfólk sjóðsins vann heiman frá sér og afgreiðsla erinda fór fram í gegnum síma eða á netinu og sýndu sjóðfélagar stöðunni mikinn skilning. Rekstur skrifstofunnar gekk engu að síður vel en á undanförnum árum hafa stór skref verið tekin í stafrænum lausnum sem komu sér vel í aðstæðum sem þessum.

Starfsfólk sjóðsins býr yfir viðamikilli reynslu og þekkingu sem gagnast vel þegar sinna þarf krefjandi og flóknum verkefnum. Ég, fyrir hönd stjórnar, þakka starfsfólki sjóðsins fyrir afar gott samstarf og vel unnin störf. Einnig vil ég þakka samstarfsfólki mínu í stjórn og nefndum sjóðsins.

Starfsfólk sjóðsins býr yfir viðamikilli reynslu og þekkingu sem gagnast vel þegar sinna þarf krefjandi og flóknum verkefnum