UFS - þættir
Sjálfbærniuppgjör sjóðsins 2021 hefur að geyma upplýsingar um áhrif starfseminnar á umhverfið, félagslega þætti og stjórnarhætti.
Sjálfbærniuppgjörið
Uppgjörið er yfirfarið af Klöppum og byggir á upplýsingum sem umhverfishugbúnaðurinn Klappir EnviroMaster hefur safnað yfir árið. Sjálfbærniuppgjörið er unnið í samræmi við leiðbeiningar Nasdaq frá 2019 og meginreglur Greenhouse Gas Protocol aðferðafræðinnar.
Sjálfbærniuppgjörið er unnið í samræmi við leiðbeiningar Nasdaq frá 2019
Umhverfið
Brú lífeyrissjóður vill starfa í sem mestri sátt við umhverfið og draga markvisst úr áhrifum starfseminnar á náttúruna og vinna að stöðugum framförum á þessu sviði.
Samstarf og grænar lausnir
Á árinu hóf sjóðurinn samstarf við hugbúnaðarfyrirtækið Klappir Grænar Lausnir sem þróar stafrænar umhverfisstjórnunarlausnir. Í byrjun sumars tók sjóðurinn í notkun kerfið EnviroMaster sem gerir sjóðnum kleift að safna umhverfisgögnum með sjálfvirkum hætti og auðveldar vinnu við gerð sjálfbærniuppgjörs.
Í lok sumars var gerður samstarfssamningur við Klappir um innleiðingu og þróun á hugbúnaði er varðar sjálfbæra virðiskeðju (e. Sustainable Value Chain) sem mun auðvelda sjóðnum að fylgjast með frammistöðu eignasafnsins með tilliti til UFS-þátta.
Losun gróðurhúsalofttegunda
Losun gróðurhúsalofttegunda er skipt í þrjú umföng samkvæmt aðferðafræði Greenhouse Gas Protocol. Umfang 1 er öll sú losun sem er skilgreind sem bein losun, meðal annars losun vegna framleiðslu á vörum eða vegna bruna á eldsneyti í bifreiðum. Umfang 2 nær yfir óbeina losun vegna hitaveitu og rafmagns. Umfang 3 inniheldur aðra óbeina losun sem fellur innan virðiskeðju sjóðsins, t.d. vegna ferða starfsfólks til og frá vinnu, viðskiptaferða og/eða úrgangs.
Öll losun sjóðsins flokkast sem óbein losun
Losun GHL | 2021 | Eining |
---|---|---|
Umfang 1 | 0 | tCO2í |
Umfang 2 | 1,8 | tCO2í |
Umfang 3 | 12,4 | tCO2í |
Kolefnisspor | 14,2 | tCO2í |
Öll losun sjóðsins flokkast sem óbein losun.
Kolefnisspor 2021
Kolefnisspor sjóðsins er reiknað í Klappir EnviroMaster kerfinu sem safnar gögnum frá upprunastað gagna eins og núverandi tækni leyfir og tryggir rekjanleika. Helstu niðurstöður uppgjörsins eru að kolefnisspor eða heildarlosun gróðurhúsalofttegunda frá rekstri sjóðsins nemur 14,2 tonnum koltvísýringsígilda (tCO2í). Losun vegna ferða starfsmanna til og frá vinnu vegur þyngst í heildarlosuninni. Næst mesta losunin er notkun á rafmagni og hitaveitu og minnsta losunin er tilkomin vegna förgunar og meðhöndlunar á úrgangi.
Losunarkræfni
Losunarkræfni sýnir heildarlosun gróðurhúsalofttegunda miðað við helstu úttaksstærðir rekstursins. Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda er sett í samhengi við orkunotkun, heildariðgjöld, stöðugildi og fjölda fermetra.
Losunarkræfni GHL | Einingar | |
---|---|---|
Orka | 74 | kgCO2í/MWst |
Heildariðgjöld | 645 | kgCO2í/ma.kr |
Starfsfólk | 542 | kgCO2í/stöðugildi |
Heildarrými | 28 | kgCO2í/m2 |
Kolefnishlutlaus fyrir árið 2030
Unnið er að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) í samræmi við loftslagsmarkmið sjóðsins og stefnt er að kolefnishlutleysi fyrir árið 2030. Öll losun í umfangi 2 ásamt losun vegna förgunar úrgangs, viðskiptaferða og ferða starfsfólks í og úr vinnu var kolefnisjöfnuð fyrir árið 2021 á vegum Kolviðar.
Orkunotkun
Orkunotkun sjóðsins er vegna hitunar og notkunar rafmagns fyrir starfsstöð sjóðsins að Sigtúni 42, Reykjavík. Sjóðurinn á fjórðungshlut í eigninni og deilir því orkunotkun með öðrum eigendum fasteignarinnar. Losun vegna orkunotkunar er 1,8 tCO2í og í töflunni hér fyrir neðan má sjá heildarorkunotkun setta í samhengi við fermetra og stöðugildi.
Umfang 2 | 2021 | Eining |
---|---|---|
Rafmagn | 0,4 | tCO2í |
Hitaveita | 1,4 | tCO2í |
Losun | 1,8 | tCO2í |
Sorpflokkun
Í október hafði sjóðurinn frumkvæði að innleiðingu á nýju sorpflokkunarkerfi sem auðveldar endurvinnslu fyrir alla eigendur fasteignarinnar að Sigtúni 42. Hluti af innleiðingunni var að aðskilja sorphirðuna fyrir húsið til að auðvelda sjóðnum og öðrum eigendum að fylgjast með þróun flokkunarhlutfalls og magn úrgangs. Samhliða innleiðingunni fékk allt starfsfólk í húsinu kynningu á meðhöndlun úrgangs ásamt því að farið var yfir margslungin en lítt sjáanleg umhverfisáhrif af völdum umbúða og hvernig koma skal í veg fyrir óþarfa sóun.
Flokkunarhlutfall sjóðsins var 54,4% árið 2021. Sjóðurinn hefur sett sér það markmið að ná 75% flokkunarhlutfalli árið 2022 og 95% hlutfalli fyrir árið 2030. Hluti af markmiðinu er að lágmarka almennt sorp ásamt því að draga úr heildarmagni úrgangs sem fellur til vegna starfseminnar.
Flokkunarhlutfall
Úrgangur á hvern starfsmann á árinu 2021 var 149,6 kg. Stærsti hluti úrgangs á árinu 2021 var almennt sorp en stefnt er að lægra hlutfalli með tilkomu nýs sorpflokkunarkerfis ásamt því að auka vitund starfsmanna um mikilvægi flokkunar. Hátt hlutfall skjalaeyðingar er vegna tiltektar í skjalageymslu sjóðsins sem var uppsafnað til margra ára.
Skipting úrgangs árið 2021
Stefna um ábyrg innkaup var innleidd á árinu þar sem markmiðið er að vörur sem sjóðurinn kaupir stuðli að ábyrgri neyslu og sjálfbærni. Þá er vilji til að framlengja lífdaga tölvu- og skrifstofubúnaðar sem ekki nýtist lengur í starfsemi sjóðsins. Í lok árs 2020 var símkerfi sjóðsins uppfært og þar með nýttust ekki lengur 25 símtól og 18 heyrnatól sem var fundið nýtt hlutverk hjá nýjum eigendum í samstarfi við Efnisveituna.
Samgöngur og viðskiptaferðir
Ferðir starfsfólks til og frá vinnu vega mest í kolefnisspori sjóðsins eða um 80% af heildarlosun koltvísýringsígilda (tCO2í). Sjóðurinn vill leggja sitt af mörkum til þess að draga úr þessari losun og hvetur því sitt starfsfólk að nýta heilsusamlega og vistvæna samgöngumáta. Meðal aðgerða til þess að ýta undir slíka þróun hóf sjóðurinn á árinu 2021 að bjóða starfsfólki samgöngustyrk. Ljóst er að ýmislegt er hægt að gera enn betur, til dæmis að bjóða upp á betri geymsluaðstöðu fyrir reiðhjól.
Á árinu 2019 hafði sjóðurinn forgöngu um að setja upp hleðslustöð fyrir rafbíla við Sigtún 42 sem nýtist um 30% af starfsfólki sjóðsins.
Vegna Covid-19 voru engar viðskiptaferðir á árinu 2021. Ráðstefnur, fundir og viðburðir eru nú oft haldnir með fjarfundarbúnaði en það hefur þegar orðið til þess að fækka viðskiptaferðum og búast má við að það sé varanleg þróun.
Ferðir starfsfólks til og frá vinnu vega mest í kolefnisspori sjóðsins eða um 80% af heildarlosun koltvísýringsígilda
Nasdaq | Umhverfisstarfsemi | |
---|---|---|
U7 | Fylgir sjóðurinn formlegri umhverfisstefnu? | Nei |
U7 | Fylgir sjóðurinn tilteknum stefnum fyrir úrgang, vatn, orku og/eða endurvinnslu? | Nei |
U7 | Notast sjóðurinn við viðurkennt orkustjórnunarkerfi? | Nei |
U8 | Hefur stjórn sjóðsins eftirlit með og/eða stjórnar loftslagstengdri áhættu? | Nei |
U9 | Hefur æðsta stjórnunarteymi þitt eftirlit með og/eða stjórnar loftslagstengdri áhættu? | Nei |
U10 | Heildarfjármagn sem árlega er fjárfest í loftslagstengdum innviðum, seiglu og vöruþróun. | 7,66 ma.kr |
Félagslegir þættir
Brú leitast við að stuðla að jafnrétti og jafnri meðferð starfsfólks. Sjóðurinn framfylgir jafnréttisstefnu í samræmi við ákvæði laga um jafna stöðu og rétt kynjanna.
Mannauður
Markmið sjóðsins er að skapa jákvætt og drífandi starfsumhverfi og verða þannig eftirsóknarverður vinnustaður fyrir hæft og metnaðarfullt starfsfólk.
Í árslok 2021 störfuðu 26 hjá sjóðnum og voru 77% konur og 23% karlar. Stjórnendur sjóðsins eru 5 en þar af eru 80% konur og 20% karlar. Framkvæmdastjóri sjóðsins er kona.
Engin starfsmannavelta var hjá starfsfólki í fullu starfi en einn starfsmaður hætti á árinu sem var í tímabundnu starfi. Ekkert vinnuslys var á árinu.
Jafnrétti fyrir alla
Rík áhersla er lögð á jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna ásamt því að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns, kynþáttar eða annarra ástæðna.
Á árinu hlaut sjóðurinn jafnlaunavottun samkvæmt ÍST85 staðlinum. Vottunin nær til alls starfsfólks sjóðsins. Hún staðfestir að sjóðurinn hefur komið sér upp kerfi sem tryggir að málsmeðferð og ákvarðanir í launamálum séu kerfisbundnar, byggi á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun. Vottunin leiddi í ljós að það er enginn óútskýrður kynbundinn launamismunur hjá sjóðnum.
Unnið hefur verið að gerð stefnu og viðbragðsáætlunar vegna eineltis og áreitni sem og stefnu um áfengi og vímuefni á vinnustað og stefnt er á að þær verði staðfestar af stjórn sjóðsins á árinu 2022.
Jafnlaunavottunin leiddi í ljós að það er enginn óútskýrður kynbundinn launamismunur hjá sjóðnum
Hollur og fjölbreyttur matur
Starfsfólk sjóðsins hefur fjölbreytt val um hollan og næringarríkan hádegismat þar sem meðal annars er gott úrval af grænmetis- og veganréttum en jafnframt eru í boði ferskir ávextir og grænmeti. Lagt er upp með að starfsfólk taki með sér heim afganga til að lágmarka matarsóun.
Heilsa og vellíðan
Starfsfólk er hvatt til að huga að heilsunni með margvíslegum hætti eins og með þátttöku í Lífshlaupinu, Hjólað í vinnuna, jógatímum og með aðgengi að jógatímum á netinu. Góð þátttaka var í Lífshlaupinu í ár þar sem starfsfólk gerði saman hinar ýmsu æfingar í hádeginu og allir hvattir til dáða í plankastöðu, hnébeygjum og fleiri styrktaræfingum. Boðið er upp á líkamsræktarstyrk og umhverfisvænn ferðamáti er verðlaunaður með samgöngustyrk. Til viðbótar hafa verið regluleg fræðsluerindi tengd andlegri og líkamlegri heilsu á vegum Vinnuverndar. Sjóðurinn tekur einnig þátt í kostnaði vegna sjálfræðiþjónustu starfsfólks og fjölskyldumeðlima þeirra.
Starfslokanámskeið og vinnustaðakynningar
Sjóðurinn býður sjóðfélögum námskeið um starfslok til að undirbúa breytingarnar sem þá verða. Á námskeiðinu er farið yfir lífeyrisréttindi sjóðfélaga hjá sjóðnum og Tryggingastofnun ríkisins. Einnig býður sjóðurinn upp á vinnustaðakynningar þar sem þátttakendur fá yfirsýn yfir lífeyrismál.
Sjóðurinn býður sjóðfélögum námskeið um starfslok til að undirbúa breytingarnar sem þá verða
Greiðslufrestur á fasteignaveðlánum vegna Covid-19
Sjóðurinn kom til móts við lántakendur sína vegna kórónuveirufaraldursins en þeir gátu sótt um að fresta greiðslum tímabundið af afborgunum og vöxtum.
Nasdaq | Félagslegir þættir | |
---|---|---|
F6 | Fylgir sjóðurinn stefnu er varðar kynferðislegt áreiti og/eða jafnrétti? | Já |
F8 | Fylgir sjóðurinn almennri heilsustefnu og/eða stefnu um heilsu og öryggi ? | Nei |
F9 | Fylgir sjóðurinn stefnu gegn barna- og/eða nauðungarvinnu? | Nei |
F10 | Fylgir sjóðurinn mannréttindastefnu? | Nei |
Traustir stjórnarhættir
Stjórn og stjórnendur sjóðsins leggja áherslu á að hafa góða stjórnarhætti að leiðarljósi í öllum verkum sínum.
Starfsreglur stjórnar
Sjóðurinn hefur sett sér starfsreglur í samræmi við 51. gr. reglna um ársreikninga lífeyrissjóða nr. 335/2015. Við mótun stjórnarhátta hefur verið stuðst við leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja sem Viðskiptaráð Íslands, Nasdaq Iceland og Samtök atvinnulífsins hafa gefið út. Sjóðurinn telur að góðir stjórnarhættir og skilvirkir innri og ytri samskipti séu undirstaðan fyrir sjálfbærum og farsælum rekstri.
Sjóðurinn leggur áherslu á að hafa góða stjórnarhætti að leiðarljósi í öllum verkum sínum
Samskipta- og siðareglur
Sjóðurinn hefur sett sér samskipta- og siðareglur með það að markmiði að koma á góðum starfsháttum, gæta að hagsmunum sjóðfélaga, tryggja að viðskipti séu stunduð af heilindum, koma í veg fyrir spillingu og mútur og hlúa að orðspori sjóðsins.
Verklagsreglur um verðbréfaviðskipti starfsfólks og stjórnar
Reglurnar gilda fyrir stjórn, nefndir og ákveðið starfsfólk og fjölskyldur þeirra og er ætlað að tryggja vandaða starfshætti sem stuðla að trúverðugleika og koma í veg fyrir hagsmunaárekstra. Framangreindir aðilar þurfa að upplýsa sjóðinn um eignir sínar í fjármálagerningum þegar þeir hefja störf og upplýsa um breytingar á þeirri eign á starfstíma sínum.
Peningaþvætti
Sjóðurinn hefur sett sér reglur á grundvelli laga nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Með reglunum er leitast við að koma í veg fyrir að sjóðurinn verði notaður til að þvætta fjármuni eða fjármagna hryðjuverkastarfsemi.
Ábyrgar fjárfestingar
Sjóðurinn hefur sett sér stefnu um ábyrgar fjárfestingar sem setur siðferðisleg viðmið fyrir fjárfestingar sjóðsins. Sjóðurinn leggur áherslu á að fjárfestingar hans uppfylli kröfur um samfélagslega ábyrgð, góða stjórnarhætti og sjálfbærni. Ábyrgð í umhverfis- og samfélagsmálum þjónar hagsmunum bæði fjárfesta og samfélagsins.
Brú ávaxtar fjármuni sjóðfélaga með heildarhagsmuni þeirra að leiðarljósi og leggur áherslu á faglega nálgun við fjárfestingarákvarðanir sínar. Að auki lítur sjóðurinn til viðmiða Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (UN Principles for Responsible Investment (PRI)).
Sjóðurinn er í samstarfi við eftirtalin samtök og fyrirtæki sem stuðla með einum eða öðrum hætti að ábyrgum og sjálfbærum fjárfestingum.
- Iceland SIF – sjálfstæður umræðuvettvangur fyrir ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar
- Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð og sjálfbærni
- Climate Investment Coalition (CIC) – alþjóðleg samtök sem stuðla að aukinni fjárfestingu í hreinni orku og öðrum umhverfislausnum
- Klappir Grænar Lausnir hf. – sérhæfa sig í gerð hugbúnaðarlausna á sviði umhverfis- og loftslagsmála
Hluthafastefna
Brú lífeyrissjóður er langtímafjárfestir og hluthafastefna hans endurspeglar áherslur um góða og ábyrga stjórnarhætti. Sjóðurinn telur mikilvægt að félög sem skráð eru á hlutabréfamarkað framfylgi og viðhaldi góðum stjórnarháttum og upplýsi um stefnu sína er varðar starfskjör, umhverfismál og samfélagslega ábyrgð. Sjóðurinn hefur sett sér viðmið um nýtingu atkvæðisréttar og birtir á heimasíðu sinni upplýsingar um ráðstöfun atkvæða í félögum sem skráð eru í Kauphöllinni. Á heimasíðu sjóðsins má finna upplýsingar um framkvæmd hluthafastefnunnar.
Brú lífeyrissjóður er langtímafjárfestir og hluthafastefna hans endurspeglar áherslur um góða og ábyrga stjórnarhætti
Nasdaq | Stjórnarhættir | |
---|---|---|
S2 | Bannar sjóðurinn forstjóra að sinna stjórnarformennsku? | Já |
S2 | Hlutfall óháðra stjórnarmanna í prósentum. | 100% |
S3 | Fá framkvæmdastjórar formlegan kaupauka fyrir að ná árangri á sviði sjálfbærni? | Nei |
S5 | Ber birgjum að fylgja siðareglum? | Nei |
S6 | Fylgir sjóðurinn stefnu um siðferði og/eða aðgerðum gegn spillingu? | Já |
S6 | Hlutfall starfsmanna sem hefur formlega staðfest að það fylgi stefnunni? | 100% |
S7 | Framfylgir sjóðurinn stefnu um persónuvernd? | Já |
S7 | Hefur sjóðurinn hafist handa við að fylgja GDPR reglum? | Já |
S8 | Gefur sjóðurinn út sjálfbærniskýrslu? | Já |
S8 | Eru gögn um sjálfbærni að finna í skýrslugjöf til yfirvalda? | Nei |
S9 | Veitir sjóðurinn upplýsingar um sjálfbærni til viðurkenndra aðila með skipulögðum hætti? | Nei |
S9 | Leggur sjóðurinn áherslu á tiltekin heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun? | Já |
S9 | Setur sjóðurinn markmið og gefur skýrslu um framvindu heimsmarkmiða SÞ? | Já |
S10 | Er upplýsingagjöf sjóðsins um sjálfbærni árituð eða endurskoðuð af þriðja aðila? | Nei |